Nám í heimildamyndagerð

Háskóli Íslands býður ekki einungis upp á nám í kvikmyndafræði sem aðal- eða aukagrein, einnig er hægt að fara í meistaranám í hagnýtri menningarmiðlun.

Kvikmyndafræði í Háskóla Íslands leggur áherslu á að skoða miðilinn í eins víðu samhengi og hægt er. Tilrauna- og heimildamyndir eru skoðaðar ásamt leiknum frásagnarmyndum og þær greindar eftir kúnstarinnar reglum. Auk fimm skyldunámskeiða skiptist námsefnið í nokkur sérsvið, svo sem námskeið um kvikmyndir frá hinum ýmsu þjóðlöndum, t.d. franskar eða japanskar bíómyndir, eða tegundir kvikmynda, svo sem hrollvekjur eða vestra. Frægum kvikmyndahöfundum eru einnig gerð góð skil. Námskeiðið ,,táknfræði og kvikmyndir” hljómar líka spennandi. Náminu lýkur með BA-prófi.

Þar sem gerð heimildamynda, sem og gerð kvikmynda, kallar á svo marga þætti sem þarf að læra, getur líka verið sniðugt að athuga með stök námskeið í ritlist og skapandi skrifum sem Háskóli Íslands býður upp á, sérstaklega ef hugurinn stefnir á handritagerð og skrif fyrir heimildamyndir eða kvikmyndir.

Meistaranámið í hagnýtri menningarmiðlun kemur líka vel til greina fyrir þá sem hyggja á heimildamyndagerð, en það er 90 eininga þverfaglegt MA-nám sem lýkur með lokaverkefni. Meðal þeirra námskeiða sem eru í boði má nefna miðlunarleiðir, vefþáttagerð, sjónrænar rannsóknaraðferðir, ritstjórn og fræðileg skrif, nýsköpun, verkefnisvinnu og fjármögnun, miðlun í hljóðvarpi og útvarpi, grundvallaratriði vefmiðlunar og skapandi heimildarmyndir.

Það má í raun segja að námið gefi nemendum ný verkfæri til að koma á framfæri sinni rannsóknarvinnu og þekkingu. Eftir námið ættu nemendur að hafa öðlast næga reynslu til að vinna sjálfstætt við ýmiskonar miðlun. Náminu lýkur svo með lokaverkefni, sem oftar en ekki er fullunnin heimildamynd eða vefgátt.

Þar sem námið er mjög fjölbreytt geta nemendur sem ekki hafa lokið BA eða BS gráðu, en eru í öðru framhaldsnámi, samt sem áður fengið að taka einstök námskeið í brautinni og einnig er hægt að ljúka 30 eininga diplómanámi, þar sem nemandi tekur 20 einingar í skyldunámi og velur sér svo 10 eininga valnámskeið.