Drawing Dead: The Highs & Lows of Online Poker

Á undanförnum árum hafa spilavíti á netinu rutt sér til rúms og virðist ekkert lát vera á nýjum og nýstárlegum leiðum fyrir fólk að spila hin ýmsu spil á netinu. Um margt er að velja en spilamennska og fjárhættuspil á netinu getur verið tvíeggja sverð sem getur leitt fólk í vandræði eða farsældir. Heimildamyndin “Drawing Dead: The Highs & Lows of Online Poker” kom út árið 2013 og sýnir báðar hliðar á póker á netinu.

Myndin fylgir lífum tveggja mismunandi pókerspilara. Annar þeirra er Michael Korpi Jr. sem gekk allt í haginn í lífinu; hann var hæfileikaríkur tónlistarmaður, íþróttastjarna, fékk góðar einkunnir í námi, hann hafði sem sagt allan pakkann. Hins vegar hafði hann óseðjandi áhuga á póker á netinu sem varð til þess að líf hans tók miklum stakkaskiptum.

Einnig er fylgst með Dusty Schmidt sem eitt sinn hafði heiminn í höndum sér en hann var einn besti áhugamaður í golfi í suðurhluta Kaliforníu. Schmidt fékk hjartaáfall aðeins 23 ára gamall og þar með lauk rísandi ferli hans í golfheiminum og hann snéri sér meira og meira að tölvuskjánum. Eftir að hafa unnið 4 milljónir dollara með því að spila póker á netinu, er hann nú talinn vera heimsins besti pókerleikari á netinu.

Sögur þessara tveggja manna, Michael Korpi Jr og Dusty Schmidt eru sagðar á nákvæman og opinskáan hátt. Annars vegar gengur Michael um landið ásamt tveimur hundum sínum og upplýsir fólk um fjárhættuspil og vandamálin sem geta fylgt slíkri spilamennsku. Á hinn bóginn, nýtur Dusty lífsins til hins ýtrasta og stórgræðir á því að spila póker á netinu.

Heimildamyndin leiðir áhorfendur í gegnum ris pókers í gegnum árin og varpar ljósi á uppsveifluna í póker árið 2003 allt til Black Friday þann 15. apríl 2011. Kvikmyndin sýnir okkur sögur tveggja mjög ólíkra einstaklinga með ólíkar sögur af spilamennsku á netinu. Myndin er verulega áhugaverð og sýnir svart á hvítu hvernig fjárhættuspil geta haft áhrif á líf spilara.