Gott safn heimildamynda komið á vefinn

Þeir sem hafa gaman af sögulegum heimildamyndum, sérstaklega gömlum og góðum, geta glaðst yfir því að á vef Dönsku kvikmyndastofnunarinnar er nú hægt að streyma gríðarlega miklu efni sem meðal annars var tekið hér á landi. Um er að ræða myndefni sem unnið var af dönskum kvikmyndagerðarmönnum allt frá árinu 1906 til 1980.

Þar er ýmislegt fróðlegt að finna, meðal annars er hægt að sjá heimildamynd af leiðangri vísindamanna upp á Vatnajökul til að skoða Grímsvötn árið 1936, mynd um jarðfræði Íslands frá árinu 1980, eða heimildamynd frá sama ári um það sem Danir kalla „Kampen of fisken“ og gefur góða mynd af mismunandi viðhorfum Norðurlandanna á kvóta og fiskveiðum á þessum tíma.

Danska kvikmyndastofnunin er þessa dagana að koma heimildamyndasafni sínu yfir á stafrænt form og það er ekki seinna vænna að kíkja við, því ótrúlegt magn streymanlegs efnis er nú þegar á boðstólnum, og á bara eftir að bætast við eftir því sem fram í sækir.

Þar er meðal annars einnig að finna heimildamynd frá 1978 um torfkofagerð Íslendinga frá upphafi byggðar, konunglegt útsýnisflug árið 1921 yfir Þingvelli, bíltúr upp Kambana frá sama ári og hvorki meira né minna en rúmlega þriggja klukkutíma heimildamynd frá árinu 1954, sem fjallar um fuglalíf við Mývatn.

Eins og gefur að skilja er einnig hægt að horfa á margar heimildamyndir sem fjalla um heimsóknir dönsku konungsfjölskyldunnar til hinna ýmsu áfangastaða á Íslandi gegnum árin. Fyrir áhugasama er einnig hægt að sjá Matthías Jochumsson halda ræðu á Akureyri í tilefni heimsóknar Friðriks VIII Danakonungs í ágúst árið 1907, ásamt fleiri perlum.

Fyrir utan allt efnið um Ísland geymir síðan einnig gríðarlegt magn annars efnis, að sjálfsögðu mikið um sjálfa Danmörku, en einnig heimildamyndir, séð með augum Dana, frá öllum heimsálfum. Það er allaveganna á hreinu að það verður hægt að gleyma sér löngum stundum á heimasíðu Dönsku kvikmyndastofnunarinnar næstu daga, sem og í náinni framtíð.