Hátíð íslenskra heimildamynda

Sigurvegari heimildamyndahátíðar Skjaldborgar árið 2018 heitir Söngur Kanemu og fylgist með ungri konu, rétt liðlega 18 ára, og leit hennar að söngvum frá heimalandi föður hennar, Sambíu. Myndin var frumsýnd í Bíó Paradís þann 5. september síðastliðinn við góðar undirtektir.

Skjaldborgarhátíðin, sem haldin var í tólfta sinn á Patreksfirði 18. – 21. maí á þessu ári, er merkileg hátíð fyrir þá sem hafa gaman af hverskonar heimildamyndum. Hún er nefnd eftir húsi sem stendur við Aðalstræti 27 og var upphaflega byggt sem samkomuhús, tilbúið til notkunar árið 1935. Þá þegar var ákveðið að húsið ætti að nefnast Skjaldborg.

Í kringum árið 1980 var farið í endurbætur á húsinu og aðstöðu til kvikmyndasýninga komið fyrir þar. Á þessum tíma var þetta ein besta sýningaraðstaða sem þekktist á landinu. Húsið var svo aftur tekið í gegn af hálfu Lionsmanna árið 2003, þá orðið illa farið. Eftir þær miklu framkvæmdir gátu reglulegar sýningar hafist aftur.

Hátíðin er þekkt fyrir að vera kjörinn vettvangur frumsýninga á nýjum íslenskum heimildamyndum, hvort sem það eru stuttmyndir eða myndir í fullri lengd, og gerir ekki upp á milli efnistaka né aðgangs að fjármagni við gerð þeirra. Allir geta sótt um að skrá sitt framlag til sýninga á hátíðinni, og í raun er eina skilyrðið það að myndin megi ekki hafa verið sýnd áður í sjónvarpi eða kvikmyndahúsi hérlendis.

Skjaldborgarhátíðin gefur því bæði kvikmyndaáhugamönnum og kvikmyndagerðarfólki tækifæri á að bæði sjá og kynna sér verk sem erfitt hefði verið að nálgast opinberlega annars. Í lok hátíðar hafa alltaf verið veitt áhorfendaverðlaun, Einarinn, og frá 2017 hefur dómnefnd einnig veitt verðlaun, Ljóskastarann.

Frestur til að skrá heimildamynd á næstu hátíð er til 19. apríl 2018. Þó er gott að hafa í huga að enskur texti þarf að fylgja með öllum myndum sem sýndar eru á hátíðinni, því hátíðin hefur ekki síst öðlast miklar vinsældir meðal erlendra gesta.