Heimildamynd tileinkuð fyrri heimstyrjöldinni

11. nóvember síðastliðinn voru 100 ár liðinn frá formlegum lokum fyrri heimstyrjaldarinnar, en á sínum tíma var því haldið fram að þetta væri stríðið sem myndi enda öll stríð. Við vitum nú svo sem öll hvernig það fór. Víða um heim var tímabundna friðarins minnst með minningarathöfnum. 70 þjóðarleiðtogar komu meðal annars saman í París, Frakklandi og tóku þátt í athöfn við Sigurbogann.

Margir listamenn hafa einnig lagt sitt af mörkum með list sinni til að heiðra þá sem féllu. Heimildamynd leikstjórans Peter Jackson verður til dæmis að teljast nokkuð gott framlag. Heimildamyndin „They shall not grow old“ var frumsýnd sama kvöld á BBC, en hún er kostuð af minjanefnd fyrri heimstyrjaldarinnar, 1418now.org, í samstarfi við BBC.

Þetta er í sjálfu sér ekki ný heimildamynd, heldur gamlar upptökur þar sem búið að nýta nýjustu tækni til að breyta 100 ára gömlum svarthvítum upptökum í litmyndir, bæta við römmum eftir bestu getu og splæsa saman við hljóðupptökur. Endurgerðin er ekki einungis afrek fyrir þær sakir hversu vel tókst til að færa gömlu filmuna yfir á stafrænt form og ná fram eðlilegum litbrigðum, heldur hvernig hægt var að breyta hraða gömlu upptökunnar.

Þessi hundrað ára gamla upptaka sem Peter Jackson og teymi hans voru að vinna með, var skotin á 10 til 18 römmum á sekúndu. Flestir hafa séð hvernig slíkar upptökur líta út þegar þær eru spilaðar á 24 römmum á sekúndu. Allar hreyfingar verða hálf hlægilegar, manneskjur og dýr virðast skakklappast áfram á grátbroslegan hátt. Með hjálp tölvutækninnar tókst að búa til innskotsramma, svo allar hreyfingar verða miklu eðlilegri og raunverulegri. Allt þetta, ásamt vel heppnaðri hljóðblöndun á alvöru upptökum og rödd leikara, gera verkið stórkostlegt.

Það mætti segja að nokkurs konar tímavél hafi loksins litið dagsins ljós, það hríslast um mann gæsahúð því allt í einu virðast þessir óþekktu hermenn úr fjarlægri fortíð, sýndir í svarthvítum hörmulegum myndgæðum, marserandi eins og karakterar í hljóðlausri Chaplin mynd, standa manni svo miklu nær.