Heimildamynd um matar- og tískusóun

Í Frakklandi fer árlega fram kvikmyndahátíðin Deauville Green Awards. Heimildamyndin „Useless“ sem þær Rakel Garðarsdóttir og Ágústa M. Ólafsdóttir eiga heiðurinn af, fékk tvær viðukenningar á hátíðinni nú í sumar, silfurverðlaun í flokki sem nefnist „Fight and adaption to climate change“ auk sérstakrar viðurkenningar frá EcoAct.

Myndin var frumsýnd á Skjaldborgarhátíðinni í maí og hefur eftir það verið boðið að taka þátt í hátíðum um allan heim. Afraksturinn hefur ekki látið á sér standa, fyrir utan viðurkenningarnar tvær í Frakklandi hefur hún líka hlotið verðlaun sem besta myndin í umhverfisflokki á Best Environmental Film Award á DOC LA heimildamyndahátíðinni í Los Angeles. Einnig var hún valin besta myndin á International Green Film Festival í Kraká í Póllandi. Nýlega hlaut hún svo verðlaunin besta heimildamyndin, á NYCTV kvikmyndahátíðinni í New York.

Heimildamyndin „Useless“ er um klukkutíma löng og fjallar um viðvarandi og vaxandi vandamál hjá Vesturlandabúum, matar- og svokallaða tískusóun. Allt of mikið er framleitt og alltof miklu er hent að sögn Rakelar, annars höfunds myndarinnar. Við erum að kaupa okkur alltof mikið af fötum, mörg hver sem eru gerð úr óendurvinnanlegum efnum.

Gott dæmi um þetta er Aliexpress æði Íslendinga sem pósturinn á Íslandi hefur ekki síst tekið vel eftir. Sprenging hefur orðið á fatakaupum Íslendinga í gegnum síðuna og ef hugsað er út í það hversu langa leið sendingin þarf að fara til að berast til okkar, er vel hægt að ímynda sér mengunina og kostnaðinn. Í myndinni er reynt að vekja fólk til umhugsunar um að velta þessum hlutum fyrir sér, gæði varanna, framleiðsluaðferðinni, launakjörum starfsmanna, flutningsleiðinni og þar fram eftir götum. Ef til vill væri betra að velja sér færri hluti úr umhverfisvænni efnum sem endast lengur. Það ætti ekki að vera svo erfitt að finna hamingjuna annars staðar en á Aliexpress.

Í myndinni eru einnig ræddar aðferðir við að minnka matarsóun, skipuleggja innkaup betur og reyna að haga þeim þannig að sem minnst fari til spillis.