Heimildamyndir um Hrunið

5. og 6. október árið 2018 stóð yfir ráðstefna á vegum Háskóla Íslands. Ráðstefnan Hrunið, þið munið þjónaði þeim tilgangi að kynna fyrir almenningi niðurstöður nýlegra rannsókna í tengslum við aðdraganda og afleiðingar hruns íslenska bankakerfisins fyrir rúmum áratugi.

Dagskráin var fjölbreytt, um 100 fyrirlestrar í 20 málstofum. Fyrirlestrarnir tóku á fjölbreyttum málum. Frá því að kanna áhrif hrunsins á heilsu barna starfsmanna í fjármálageiranum á þessum tíma, yfir í afleiðingar þess fyrir íslensk stjórnmál. Síðan sem sett var upp til kynningar og upplýsingar um ráðstefnuna er einnig afar gagnleg. Þar er hægt að finna á einum stað upplýsingar um nánast allt efni, sama á hvaða formi það er, sem tengist bankahruninu hér á landi.

Vefsíðan er vel sett upp og auðvelt að nálgast allt efni. Til að gera sér í hugarlund hversu víðtæk áhrif hrunið hafði á mörgum sviðum er nóg að lesa yfir þær deildir háskólans sem birt hafa lista yfir þær fræðigreinar er skrifaðar hafa verið í sínum deildum. Þær flokkar sem finna má á síðunni innihalda sumir hverjir yfir tugi fræðigreina, og má til dæmis nefna bókmenntafræði, félagsfræði, hagfræði, heimspeki og siðfræði, lögfræði, heilsa, mannfræði, menntavísindi, sagnfræði, stjórnmálafræði og vipskiptafræði. Samtals eru birtar fræðigreinar á síðunni vel yfir hundrað.

5 heimildamyndir eru listaðar á síðunni auk tveggja leikinna kvikmynda. Í flestum tilvikum er einnig hægt að nálgast streymi af heimildamyndunum eða nánari upplýsingar um hvar sé hægt að sjá þær. Þar er einnig að finna nýjustu mynd Péturs Einarssonar „Ransacked“ frá árinu 2017.

Á síðunni, sem ætlað er að þjóna sem gagnabanki í framtíðinni, er einnig búið að safna saman listum yfir fræðibækur sem hafa verið gefnar út, kallaðar Hrunbækur. Þar er einnig hægt að nálgast allar laga og reglusetningar sem tengjast Hruninu, dómaframkvæmdir og dóma hæstaréttar. Allar skýrslur, innlendar sem erlendar eru á skrá á síðunni, einnig allur skáldskapur, leikrit og ljóðabækur sem tengjast þessum tíma í sögu landsins.