Inside Einstein’s Mind

Þann 25. nóvember 2015 frumsýndi NOVA og PBS heimildarmyndina Inside Einsteins‘ Mind. Myndin var gerð í tilefni þess að þann 25. nóvember það ár voru liðin eitthundrað ár frá því að Einstein gaf út í einum hluta sitt mikla verk almennu afstæðiskenninguna. Heimildarmyndina skrifaði, framleiddi og leikstýrði Jamie Lochhead. Um afstæðiskenningu Einsteins þarf ekki að fara mörgum orðum – hún hefur gjörbyllt hugmyndum mannkyns og skilningi á eðli og lögum náttúrunnar og á eðli og sögu alheimsins og jafnvel tímans sjálfs.

Albert Einstein fæddist árið 1879 í Ulm í Þýskalandi og lést 1955 í Princeton í Bandaríkjunum. Eftir nám í Sviss í stærðræði og eðlisfræði og eftir að hafa starfað um nokkur ár á einkaleyfaskrifstofu í Bern fékk hann prófessorsstöðu í Zürich og Berlín. Árið 1905 komu út þrjár greinar eftir hann sem hver og ein olli straumhvörfum í eðlisfræði. Hann hlaut Nóbelsverðlaunin árið 1921 fyrir rannsóknir sínar. Hann flúði nasisma Þýskalands árið 1933 og fluttist til Bandaríkjanna þar sem hann bjó til æviloka.

Í heimildarmyndinni er horft til mannsins bak við kenningarnar. Þvert á það sem margir halda spruttu kenningar hans um afstæði hlutanna ekki fullmótaðar fram í einni hendingu heldur var snilld Einsteins fólgin í afar agabundnum hugleiðingum sem smám saman gerðu honum kleift að móta kenningar sínar. Myndin er þægileg áhorfs og alls engin „þurr fræði.“ Hún er myndræn og í henni eru viðtöl við eðlisfræðinga og aðra sérfræðinga sem segja vel frá. Varpað er fram mörgum skemmtilegum spurningum úr daglegu lífi, – spurningum sem Einstein velti fyrir sér sjálfur og áhorfandinn getur tekið þátt í að velta fyrir sér og svara.

Áhorfandinn þarf ekki að óttast að heimildarmyndin dveljist einvörðungu í heimi raunvísindanna þótt þar sé raunar fátt að óttast. Miklu heldur fjallar myndin um manninn sjálfan, einkalíf hans, hugsun og starf. Albert Einstein var vissulega stærri en flest okkar í anda, en samt sem áður var hann maður, með alla sína kosti og galla eins og við hin.