Kvenkyns vísindamenn

Marie Curie var vísindamaður sem stundaði rannsóknir á geislavirkni. Hún fæddist árið 1874 í Póllandi. Marie Curie var fyrsta konan til að hljóta Nóbelsverðlaun og fyrsti einstaklingurinn til að hljóta verðlaunin tvisvar sinnum, einu sinni með eiginmanni sínum og vísindamanninum Pierre Curie og eðlisfræðingnum Henri Becquerel og í seinna skiptið ein. Hún er enn í dag eina manneskjan sem hefur nokkurn tímann hlotið tvenn Nóbelsverðlaun. Hún var jafnframt fyrsta konan til að gegna stöðu prófessors við Háskólann í París. Árið 2013 kom út heimildarmynd um þessa merku konu: “The Genius of Marie Curie – The Woman Who Lit up The World” sem var sýnd á BBC. Myndin fjallar um líf Marie Curie, bæði persónulegt líf hennar sem móðir og kona sem varð þrisvar sinnum ástfangin sem og um frama hennar sem vísindamaður sem uppgötvaði og rannsakaði geislavirkni.

Árið 2017 kom út myndin “Jane.” Heimildarmyndin fjallar um vísindamanninn Jane Goodall og segir aðallega sögu hennar þegar hún var ungur vísindamaður í Tansaníu og frá byltingarkenndum uppgötvunum hennar í rannsóknum um simpansa. Myndin fjallar einnig um persónulegt líf Goodall og samband hennar við tökumanninn og fyrrverandi eiginmann hennar Hugo van Lawick. Jane Goodall er dýrafræðingur og mannfræðingur. Hún er þekktust fyrir rannsóknir sínar á simpönsum en í 45 ár rannsakaði hún simpansa. Síðan árið 2002 hefur hún verið sendiherra Sameinuðu þjóðanna fyrir friði. Þar að auki stofnaði hún Jane Goodall stofnunina sem vinnur að verndun og velferð villtra dýra. Goodall er einnig frægur umhverfisverndarsinni, hún til að mynda kom af stað í nóvember 2018, í samstarfi við stórleikarann Leonardo Dicaprio, vegan fatalínu til að vekja athygli á verndun apa og til að styðja við fólk sem starfar við að bjarga órangútum.

Við hvetjum alla til að kynna sér þessar tvær kjarnakonur betur og tilvalið að byrja á því að horfa á þessar tvær heimildarmyndir um þær.