Fyrri heimsstyrjöldin – kvikmyndir

Það er af nógu að taka þegar leitast er eftir kvikmyndum um fyrri og seinni heimsstyrjaldirnar. Við fórum á stúfana og settum saman lista yfir nokkrar af þeim bestu sem voru gefnar út eftir síðustu aldamót. Hér að neðan finnurðu upplýsingar um nokkrar af uppáhalds myndunum okkar sem byggðar eru á sönnum atburðum sem áttu sér stað í fyrri heimstyrjöldinni.

Beneath Hill 60

Kvikmyndin Beneath Hill 60 er áströlsk og kom út árið 2010. Segir hún frá áströlskum námumönnum sem herinn fékk til liðs við sig í fyrri heimsstyrjöldinni. Árið 1916 grófu námumennirnir göng undir herbúðir Þjóðverja og fylltu þau af sprengiefni. Þetta stóra verkefni gaf breska hernum mikla yfirburði í baráttunni við Þjóðverja. Á meðal leikara í myndinni eru Brendan Cowell, Alan Dukes og Harrison Gilbertson. Stórkostleg mynd sem er byggð á sönnum atburðum.

Flyboys

Kvikmyndin Flyboys kom út árið 2006 og er byggð á sönnum atburðum. Myndin segir frá herskráningu, þjálfun og hernaðarreynslu hóps ungra Bandaríkjamanna sem buðu sig fram sem orrustuflugmenn fyrir franska herinn í Lafayette Escadrille, 124. flugsveit Frakka árið 1916. Í hópnum voru fimm franskir yfirmenn og 38 bandarískir sjálfboðaliðar sem vildu fljúga og berjast í fyrri heimsstyrjöldinni fyrir inngöngu Bandaríkjanna í stríðið árið 1917. Meðal leikara eru James Franco, Jean Reno, Martin Henderson og Jennifer Decker. Stórkostleg og áhrifarík mynd sem allir aðdáendur stríðsmynda verða að sjá.

Haber

Haber er stuttmynd frá 2008 og er skrifuð og leikstýrt af Daniel Ragussis. Í myndinni er fjallað um störf Fritz Haber en hann þróaði efnavopn fyrir þýska herinn í fyrri heimsstyrjöldinni. Þrátt fyrir að kvikmyndin hafi ekki enn verið gefin út fyrir almenning hafa sýningar farið fram á kvikmyndahátíðum út um allan heim, þar sem hún hefur fengið mikið lof frá fjölmiðlum og gagnrýnendum. Þessi stuttmynd er gullmoli sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.