Lawrence of Arabia

Kvikmyndin Lawrence of Arabia er sannsöguleg klassísk stórmynd leikstýrð af Sir David Lean sem frumsýnd var í London 10. desember 1962. Hún er vafalaust ein þekktasta kvikmynd sem segir frá atburðum á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Handrit myndarinnar, sem skrifað var af þeim Robert Oxton Bolt og Michael Wilson, er byggt á sjálfsævisögu breska ofurstans Thomas Edward Lawrence, Seven Pillars of Wisdom. Úr smiðju Davids Lean hafa komið fleiri stórmyndir á borð við The Bridge on the River Kwai (1957), Doctor Zhivago (1965) og A Passage to India (1984). Tónlist myndarinnar er eftir Maurice Jarre.

Thomas Edward Lawrence fæddist 1888 í Wales og lést 1935 á Englandi. Að loknu námi í sögu í Oxford starfaði hann við fornleifauppgröft á Sýrlandi. Eftir að fyrri heimsstyrjöldin braust út bauð hann sig fram til herþjónustu í breska hernum og var staðsettur í Egyptalandi. Árið 1916 var hann sendur í njósnaleiðangur á Arabíuskagann þar sem hann tengdist fljótt Arabaráðinu og sjálfstæðisbaráttu Araba. Að styrjaldarlokum starfaði hann heimkominn hjá breska utanríkisráðuneytinu. Lawrence lést af afleiðingum vélhjólaslyss árið 1935.

Myndin lýsir ofangreindum atburðum á Arabíuskaga í fyrri heimsstyrjöldinni, sjálfstæðisbaráttu Araba gegn Ottómanveldinu og aðkomu T.E. Lawrence að þeim. Auk þess að fjalla um baráttu Lawrence með Arabaráðinu í átt til frelsis fjallar hún ekki síður um innri brattáttu Lawrence sjálfs sem hermanns, tilfinningar hans til föðurlandins, Bretlands, um leið og samhug hans með baráttu Araba og vináttu hans við þá. Í helstu aðalhlutverkum fara Peter O´Toole í hlutverki Lawrence, Sir Alec Guinness leikur Faisal prins, Anthony Quinn fer með hlutverk Auda abu Tayi, Jack Hawkings leikur Allenby hershöfðingja og Omar Sharif er í hlutverki Sherif Ali.

Strax eftir frumsýningu varð ljóst að kvikmyndin væri afburða vel heppnuð. Slíkar voru viðtökur bæði gagnrýnenda og áhorfenda. Hún hefur verið talin ein af allra bestu kvikmyndum sögunnar og því til marks var myndin sett á varðveislulista Bókasafns bandaríska þingsins árið 1991.