Nám fyrir handritshöfunda framtíðarinnar

Fyrir alla þá sem snemma á lífsleiðinni hafa ákveðið að starfa við heimilda- eða kvikmyndagerð í framtíðinni eru fjölmörg námskeið og skólar í boði fyrir unglinga frá 13 ára aldri. Anra Films býður til dæmis upp á tveggja daga stuttmyndanámskeið fyrir 13 – 16 ára unglinga. Þar fá unglingarnir tækifæri til að búa til sína eigin stuttmynd og farið er yfir allt ferlið, frá gerð handrits til eftirvinnslu. Þannig fá þeir innsýn inn í þær fjölmörgu greinar sem koma við sögu við gerð kvikmyndar. Námskeiðið er haldið í húsnæði Kvikmyndaskóla Íslands og nemendurnir fá að vinna með raunverulegum tækjum, tökuvélum og eftirvinnsluforritum.

Hvaða nám tekur svo við í framhaldinu fer svolítið eftir því hvaða svið kvikmyndagerðar heillar mest. Úr nógu er að velja og erfitt getur verið að gera upp á milli þess að verða handritahöfundur, leikstjóri, kvikmyndatökumaður, hljóðmaður, ljósamaður, klippari, framleiðandi eða sjá um eftirvinnslu.

Kvikmyndaskóli Íslands kennir til dæmis leikstjórn og handritagerð, leikstjórn og framleiðslu, leiklist og skapandi tækni, sem nær yfir kvikmyndatöku, hljóðvinnslu, klippingu og myndbrellur.

Tækniskólinn býður upp á nám í hljóðupptöku og vinnslu. Það nám tekur 1 ár og á þeim tíma er farið vel yfir upptökutækni, hljóðfræði og alla rafmagnsfræði sem tengist hljóði. Stafrænni tækni er gerð góð skil auk þess sem nemendur öðlast þekkingu á tónfræði, hegðun hljóðs og hljóðsetningu.

Þeir sem vilja vinna við þrívíddarvinnslu, tæknibrellur fyrir kvikmyndir, teiknimyndagerð og eftirvinnslu kvikmynda ættu að skoða Margmiðlunarskólann. Skólinn er vel búinn tækjum og státar meðal annars af green screen stúdíói, hljóðstúdíói, MotionCapture og búnaði fyrir kvikmyndatökur. Námið tekur tvö ár, á fyrsta ári kynnast nemendur helstu forritum og aðferðarfræði í greininni. Í byrjun 3. annar velja nemendur sér svo það sérsvið sem heillar mest. Lokaönnin er skil á einu stóru verkefni sem er unnið í samstarfi við atvinnulífið og með stuðningi kennara.

Svo er að sjálfsögðu alltaf hægt að sjá hvað skólar erlendis hafa upp á að bjóða.