Verðlaunamyndirnar á RIFF

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin RIFF var haldin í 15. sinn á dögunum 27. september til 7. október og bauð upp á sannkallaða veislu fyrir unnendur kvik- og heimildamynda. Meðal áhugaverðari mynda hátíðarinnar var opnunarmyndin „Donbass“ eftir hinn úkraínska Sergei Losnitza, sem einnig var einn af aðalgestum hátíðarinnar. Myndin er leikin en er gerð í heimildamyndastíl og hefur yfir sér alvarlegt yfirbragð. Í Úkraínu hefur geysað stríð síðan árið 2014, þar sem 10.000 manns hafa fallið og milljónir flúið landið. Þetta stríð er að sögn Sergei fremur tilgangslaust og enn sem komið er, ríkir alger pattstaða. Sögusvið myndarinnar er nánast alfarið á yfirráðasvæði aðskilnaðarsinna, en það eru þeir sem vilja kljúfa sig frá Úkraínu og sameinast Rússum.

Á lokadegi hátíðarinnar voru svo afhent verðlaun í nokkrum flokkum:

Gullna lundann hlaut myndin Knife + Heart í leikstjórn Yann Gonzalez. Grímuklæddur morðingi myrðir hinsegin klámmyndaleikara í París árið 1979. Myndin keppti einnig í aðalkeppni Cannes.

América í leikstjórn Erick Stoll og Chase Whiteside hlaut verðlaunin: Önnur framtíð. Þrír ólíkir bræður verða að sameinast á ný til að hugsa um 93 ára gamla ömmu sína. Bæði ævintýri og erfiðleikar fylgja í kjölfarið.

Gulleggið hlaut myndin Vesna í leikstjórn Nathalia Konchalovsky. Marina ferðast til Sankti Pétursborgar fyrir afmæli dóttur sinnar og upplifir sig óvelkomna.

Besta erlenda stuttmyndin var Gulyabani í leikstjórn Gürcan Keltek. Erfiðri ævi afturgöngu er minnst með bréfa- og dagbókarskrifum hennar í gegnum miðilinn Fethiye Sessiz frá Izmir.

Titilinn besta íslenska stuttmyndin hlaut myndin Jörmundur í leikstjórn Maddie O´Hara, Jack Bushell og Alex Herz. Jörmundur Hansen, fyrrum allsherjargoði og núverandi herrafataverslunareigandi, ræðir vísindi, trú og kraftinn sem felst í að lifa í sátt við náttúruna.

Sérstök dómnefndarverðlaun: Styx í leikstjórn Wolfgang Fischer. Rilke ákveður að uppfylla gamlan draum og sigla seglbátnum sínum ein á haf út. Stormur skellur á, og á vegi hennar verður bátur með fjölda fólks innanborðs. Erfiðar ákvarðanir eru framundan.

Næsta RIFF verður haldin fimmtudaginn 26. september til sunnudagsins 6. október árið 2019.